17.11.2008 | 22:38
Neyðarlögin voru vandamálið, ekki Icesave sem slíkt
Það er alltaf verið að tala um Icesave deiluna við Breta og Hollendinga. En uppgjör á skuldbindingum vegna Icesave var ekki grundvöllurinn sem þessi deila byggðist á, heldur þau ákvæði neyðarlaganna að ætla að mismuna Íslendingum og útlendingum. Neyðarlögin gengu út á að íslenskir innistæðueigendur fengju allt, en útlendir innistæðueigendur - í útibúi íslensks banka - áttu að sitja uppi með afganginn, ef einhver yrði.
Þetta ákvæði neyðarlaganna bitnaði þar með á eigendum innistæðna í Icesave reikningunum. Þetta var mismunun sem byggðist á þjóðerni og þverbraut allar reglur á evrópska efnahagssvæðinu.
Þetta sættu hvorki Bretar né Hollendingar sig við, og ekki heldur ALLAR hinar Evrópusambandsþjóðirnar - þar á meðal frændur okkar á Norðurlöndunum. Það hefði engu máli skipt hversu stór skuldin var vegna Icesave reikninganna, ESB löndin hefðu samt farið í hart.
ESB hefði jafnvel sagt upp EES-samningi við Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nei, þetta gekk út á að á því augnabliki sem Ísland hefði stofnað til máls til að reyna að hnekkja tilskipun ESB um að það ætti að greiða þessar 20 þúsund evrur pr. reikning þá væri orðinn til efi um að tilskipunin stæðist. Það þýddi að kominn væri upp efi um að fari bankar á hausinn einhvers staðar í Evrópu þá séu innistæðurnar í þeim tryggðar upp að 20 þús. Evrum.
Þarna hefði, hvorki meira né minna, verið kominn upp efi um það hvort trygging lægi að baki stórum hluta sparifjár í Evrópu. Fólk hefði þá umvörpum farið í bankana og tekið út sparifé sitt þar sem það væri ekki öruggt þar sem vafi væri um trygginguna. Þetta mátti ekki gerast og því lagði ESB ofuráherslu á að málið yrði klárað án þess að höfðað yrði mál.
Síðan verður væntanlega farið í að stofna einn sameiginlegan evrópskan tryggingarsjóð innstæðna þar sem komið hefur í ljós að þegar bankar lítilla þjóða fara að bjóða þjónustu sína í stóru Evrópulöndunum þá standa bakgrunnsþjóðirnar ekki undir því.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 17.11.2008 kl. 23:40
Takk fyrir þetta innlegg Sigurður.
Síðastnefndi punkturinn, um sameiginlegan evrópskan tryggingarsjóð innistæðna, minnir á ummæli Sigurjóns fyrrum Landsbankastjóra í fréttaviðtali um helgina, að úr því ábyrgðir giltu fyrir allt efnahagssvæði Evrópu, þá væri út úr kú að hvert og eitt land bæri ábyrgð.
Leifur H, 18.11.2008 kl. 00:12
Neyðarlögin voru sett til að tryggja innistæður íslenskra innistæðueigenda, fyrst og fremst. Það er alveg satt og engum blöðum um það að fletta. Þetta grundvallaðist samt á neyðarrétti, viðleitni til að bjarga efnahaginum hér frá falli (sem tókst ekki).
Jóhanna Baldursdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.