Gott framtak hjá Björgólfi

Mér hefur alltaf þótt Björgólfur áhugaverður og drífandi karakter. Vissulega var hann einn af útrásarvíkingunum. En hann sker sig úr þeim hópi með því að hafa einn þeirra tekið persónulega ábyrgð á skuldum. Nú fellur þessi ábyrgð á hann, en hinir "víkingarnir" sitja sem fastast í sínum glæsihöllum og munu engu tapa persónulega.

Prófum bara að skoða dæmið miðað við ef Björgólfur hefði EKKI tekið þessa ábyrgð. Það kemur fram í tilkynningunni frá honum að persónulega ábyrgðin sé 58 milljarðar og upp í hana komi kannski 12 milljarðar. Eftir standa 46 milljarðar. Björgólfur segir að verðmæti annarra fyrirtækja sinna sé á bilinu 15 til 23 milljarðar króna (en var í ársbyrjun 2008 um 140 milljarðar). Ef hann hefði tekki tekið þessa persónulegu ábyrgð, þá gæti hann setið sem fastast á þessum 15 til 23 milljörðum. En vegna þess að hann tók ábyrgðina af klúðrinu hjá Eimskipafélaginu á sjálfan sig, þá fara allar þessar eignir upp í þessa 46 milljarða sem út af standa. Það er þó skárra en ef ekkert fengist upp í kröfuna.

Það er skýr munur á Björgólfi og öðrum útrásarvíkingum í þessu samhengi og mér finnst mikil ástæða til að benda á þessa staðreynd. Nóg er nú lamið á manninum, svo fast reyndar að fólki yfirsést þó þessi ljósi punktur í tilverunni fyrir kröfuhafa. En vitaskuld er ekki jafn bjart yfir Björgólfi sjálfum, því hann tapar öllu.


mbl.is Framtíðin undir kröfuhöfum komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar restina af fréttinni

Jón Ólafsson talar fjálglega um að þetta sé sigur og frávísun málsins sýni að hann hafi verið heiðarlegur. En hér klikka fjölmiðlar illilega, því það vantar restina af fréttinni - eða réttara sagt fyrripartinn. Jón er semsagt búinn að fá refsingu fyrir skattalagabrotið. Hann var sektaður fyrir að stela 360 milljón krónum undan skatti. En hversu há var sektin, hver var refsingin?

Jú, Jón fékk 100 milljón króna sekt fyrir að svíkja undan skatti, auk þess sem hann þurfti að sjálfsögðu að borga viðkomandi skatta með dráttarvöxtum. Þessu segja fjölmiðlar ekki frá, heldur taka við hann viðtöl um hvað hann sé feginn að vera laus undan þessum ofsóknum.

Hvernig verður Jón að góðum gæja sem gerði ekkert af sér, þótt héraðsdómur hafi að sinni ekki viljað taka á kröfu um að honum verði varpað í fangelsi fyrir að stela af samborgurum sínum? 

Það að stela undan skatti er að stela frá almenningi. Jón gerði það. Undarleg siðblinda er þetta af manninum að berja sér á brjóst í fjölmiðlum eins og ekkert hafi í skorist. Ég man ekki eftir mörgum þjófum sem það hafa gert.


mbl.is Skattamáli Jóns vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfur var semsagt ímyndun hjá Reyni

Þetta kemur allt heim og saman við það sem Reynir Traustason var sjálfur búinn að viðurkenna. Hann sagði þetta í viðtali við mbl.is í gærkvöldi: "Mistökin mín í málinu eru þau að láta truflast af einhverjum ótta við eitthvað ókomið..."

Það var þessi ótti sem leiddi til þess að Reynir nefndi að Björgólfur gæti stoppað prentun DV. En eins og kemur fram í yfirlýsingu Björgólfs þá var hann ekki í nokkri aðstöðu til að hafa áhrif á ritstjórn DV og þekkti ekki til málsins.

Þar að auki þætti frekar skrítið ef Reynir leyfði Björgólfi að stjórna birtingu frétta í DV, því það kemur fram í spjallinu sem var birt í Kastljósi í gærkvöldi að Reynir ber mikinn haturshug til Björgólfs og vill gera allt sem hann getur til að "taka hann niður."

Hann hlýtur að vera fremur óhugnanlegur, hugarheimurinn sem ritstjóri DV býr í.

 


mbl.is Björgólfur: Fjarstæða en kemur ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver var það sem grátbað Reyni?

Reynir Traustason hefur staðfest að Björgólfur Guðmundsson hafi hvergi komið nálægt því að krefjast þess að fréttin um Sigurjón Þ. Árnason yrði ekki birt.

Eftir stendur að Reynir segir að valdamiklir aðilar hafi nánast grátbeðið um að þessi frétt yrði ekki birt. Nú stendur upp á Reyni að upplýsa hverjir þessir aðilar eru, sem stóðu skælandi á tröppunum hjá honum - og sem Reynir óttaðist svo mjög að hann fór að tilmælum þeirra.

Hver einasti fjölmiðill landsins ætti að ganga hart að ritstjóra DV og krefja hann sagna um hver eða hverjir hafi svo mikil ítök í ritstjórn DV að þeir geti stýrt fréttaskrifum þar. Þó þeir séu hvorki blaðamenn né ritstjórar.

Og svo ætti Reynir að sjálfsögðu að biðja Jón Bjarka Magnússon blaðamanna afsökunar á þeim subbuskap sem hann hefur sýnt honum.


mbl.is Breyttur leiðari DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatursfullur hugarheimur ritstjórans

Það er með ólíkindum að lesa þessa frásögn af samtali Reynis ritstjóra og blaðamannsins. Sérstaklega slær mann hvað ritstjórinn virðist siðblindur og fullur af hatri. 

Þetta fyrrnefnda kemur fram í þessum kafla, aþr sem hann segir:  "það eru ótal fréttir sem maður birtir ekki af ýmsum ástæðum. Við erum ekki búin að skrifa fréttina um lögreglumanninn sem fyrirfór sér. Það er ástæða fyrir því. Þá er maður að hugsa um hagsmuni blaðsins. Ekki það, að þetta er frétt sem á fullan rétt á sér."

Hann er semsagt ekki að hugsa um hagsmuni fjölskyldu manns sem fyrirfór sér, heldur um hagsmuni blaðsins.

Og svo er Reynir ekkert að skafa ofan af því hvað hann hyggst fyrir með Björgólf Guðmundsson, sem er einn af eigendum prentsmiðjunnar sem prentar DV:  "Björgólfur Guðmundsson á prentsmiðjuna. Og ég svo sem er ekkert nojaður yfir því. Ég bara berst við þann djöful og hann mun, þú veist ... við munum taka hann niður og þá verður allt miklu heilbrigðara en það var."

Já, verður allt heilbrigðara? Var ekki Hreinn Loftsson, aðaleigandi útgáfufélags DV, að falast eftir því að kaupa Morgunblaðið? Og væntanlega gera Reyni Traustason að aðalritstjóra.

Og þá verður allt miklu heilbrigðara...


mbl.is „Stóðum andspænis þessum hroðalegu örlögum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Reynir að ljúga upp á Björgólf?

Ég fæ ekki betur séð en Reynir hafi verið að nota Björgólf Guðmundsson sem blóraböggul þegar hann var að útskýra fyrir blaðamanninum hvers vegna hann vildi ekki birta fréttina. Reynir segir nefnilega hvergi berum orðum að Björgólfur hafi bannað honum eitt eða neitt - eða yfirleitt haft samband við hann - heldur gefur hann það í skyn, samanber þessi orð sem eru birt orðrétt: "Það eru svo margir áhrifavaldar á líf okkar, eins og Björgólfur Guðmundsson, með annars vegar veð í bréfunum og hinsvegar prentun á blaðinu og meðan það er eitthvað lífsmark á honum þá mun hann reyna að drepa okkur."

Þetta virkar frekar á mig eins og Reynir sé með ofsóknaræði á háu stigi, eða bara svona hrikalegur lygari (sem mér finnst mun trúanlegra). Hann fullyrðir við blaðamanninn að Björgólfur muni segja eitthvað út af fréttinni. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru allt aðrir áhrifamenn í íslensku viðskiptalífi sem standa Reyni mun nær, fyrst og fremst Jón Ásgeir Jóhannesson og Hreinn Loftsson. Bankastjóri Landsbankans sem um ræðir reyndist þessum mönnum "vinur í raun" og vafalítið eru það þau tengsl sem hafa valdið skjálftanum í Reyni.


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða almannatengsl?

Er ekki of mikið sagt hjá stjórnvöldum að hluti af þessum 350 milljónum hafi farið í almannatengsl? Hvaða almannatengsl? Eru menn að tala um blaðamannafundina í Iðnó? Eða um Björn hinn norska, sem var til ráðgjafar í nokkrar vikur? Vart hefur mikið meira verið gert af hálfu stjórnvalda sem kallar á einhvern utanaðkomandi kostnað til að kynna málstað Íslendinga. Erum við kannski að tala um 5 milljónir - af þessum 350?

Sem segir auðvitað hversu hroðalega illa hefur verið staðið að öllum kynningarmálum í tengslum við bankakreppuna. Og áætlunin fyrir næsta ár segir allt sem segja þarf: þá á að eyða heilum 28 milljónum í ráðgjöf og almannatengsl.

Norður-Kóreumenn verja meiri fjármunum en þetta í samskipti við umheiminn.


mbl.is 350 milljónir í ráðgjöf og almannatengsl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágúst lætur Davíð blekkja sig

Manni þykir þingmenn í viðskiptanefnd Alþingis frekar seinir að hugsa. Þeir sátu í tæpa tvo tíma á fundi með Davíð Oddssyni, en áttuðu sig samt ekki á blekkingum hans. Davíð ber fyrir sig bankaleynd, en auðvitað á engin bankaleynd við í þessu tilfelli. Sú aðgerð að Bretar beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga hefur ekkert með bankaleynd að gera. Þá hefði nefnilega ríkt leynd um aðgerðina, ekki satt? Þá hefði engin vitað af henni. En auðvitað vissu allir af henni og allir heyrðu hvaða ástæður Gordon Brown bar fyrir sig. Það eina sem vantaði upp á var að fá nánari upplýsingar um þessar ástæður.

Samt er með ólíkindum ef enginn annar einstaklingur á Íslandi en Davíð Oddsson veit neitt nánar um hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögunum. Ef svo er, þá hlýtur maður að ætla að þar hafi Davíð verið einn að verki. Með öðrum orðum: hann einn veit, vegna þess að þetta er allt honum að kenna.

En hverskonar vesalingar eru þetta þingmennirnir sem láta manninn valta svona yfir sig?

Og á maður virkilega að trúa því að hann sitji í stól Seðlabankastjóra í óþökk allra annarra bara vegna ótta einhverra Sjálfstæðismanna um að annars fari hann aftur í pólitík? Frekar vil ég hafa hann í pólitík en að þvælast fyrir í Seðlabankanum. 


mbl.is Kom á óvart að Davíð upplýsti ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vigdís er illa mælt á ensku

Ég sá frétt á BBC News í gærkvöldi, þar sem rætt var við Vigdísi Finnbogadóttur um ástandið hér á landi í fjármálakreppunni. Það kom mér á óvart hvað hún var illa mælt á ensku, miðað við hina löngu reynslu hennar af samskiptum erlendis. Hún komst klaufalega að orði, vantaði orð og rak í vörðurnar. Framburðurinn bar ekki vitni um að hún hafi oft þurft að tala ensku. Það var í raun pínlegt að hlusta á hana, þótt meiningin í því sem hún var að reyna að segja væri svosem allt í lagi.

Í þessu tilfelli hefði verið betra fyrir Vigdísi að tala bara íslensku og láta túlka orð sín í viðtalinu.


mbl.is „ Særandi að vera sakaður um glannalegar athafnir “
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason ætlar að taka á svona málum

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur einmitt verið að undirbúa að sérstakur saksóknari taki á svona málum og að bankaleynd verði afnumin við rannsókn þeirra þar sem þörf krefur. Það var loksins að einhver pólitíkus bretti  upp ermarnar og færi að kafa ofan í drulluna.
mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband