29.10.2008 | 10:06
Hvar eru 77 milljarðarnir hans Pálma?
Það eru ekki liðnir tveir mánuðir frá því að Pálmi Haraldsson seldi Baugi öll hlutabréf sín í breskum fyrirtækjum og fékk í staðinn restina af hlutabréfum í Sterling og tengdum félögum, ásamt peningum. Við það tækifæri sagði Pálmi í viðtölum við fjölmiðla að hann kæmi út í 77 milljarða króna gróða, og líklega væri þetta mesti hagnaður Íslandssögunnar í einum viðskiptum. Hann sagði líka að hann ætlaði að einbeita sér að flugrekstrinum, því þar væru miklir möguleikar.
Hvar eru þessir 77 milljarðar núna (sem eru kannski nær 150 milljörðum vegna veikingar krónunnar)? Hvernig dettur manninum í hug að láta Sterling bara fljúga á hausinn, þótt hann eigi sand af seðlum - að eigin sögn. Áttar hann sig ekki á því að ef orðspor Íslendinga var bágt fyrir í Danmörku, þá er það bara barnaleikur miðað við það sem nú tekur við. Það að skilja tugþúsundir manna eftir úti um allan heim er hrikalegt og ekki bætir úr skák að eigandi flugfélagsins á næga peninga til að klára þetta sjálfur.
Þetta virkar á mann eins og siðblinda á hæsta stigi.
Sterling gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.10.2008 | 18:46
Lögleysa leysir ekkert
Í heiftúðugri umræðu síðustu daga hefur oft verið talað um að frysta eignir manna sem taldir eru eiga sök á fjármálakreppunni, setja þá í fangelsi eða jafnvel gera þá útlæga. Meira að segja hefur verið búinn til listi yfir helstu sökudólgana.
Vonandi er þessi umræða bara til að fá útrás. Vonandi er enginn í raun og veru að láta sér detta í hug að brjóta lögin. Vissulega hafa margir orðið fyrir tjóni - og höfðu þó ekkert gert af sér til að verðskulda það. En hvernig sem við upplifum þá kreppu sem nú gengur yfir þjóðina, þá er ekkert unnið með því að láta sér detta í hug að taka lögin í eigin hendur.
Hins vegar er afar mikilvægt að rannsókn fari fram á tildrögum kreppunnar og sjálfsagt að draga menn til sakar sem til þess hafa unnið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2008 | 15:24
Ekki voru allir sem tóku þessa áhættu
Það er auðvelt að vera vitur eftirá, en staðreyndin er engu að síður sú að hærri ávöxtun fylgir alltaf áhætta. En flestallir virðast hafa talið þessa sjóði algjörlega áhættulausa og því eru vonbrigðin skiljanlega mikil.
En svo var líka hellingur af fólki sem ekki vildi taka áhættu og lagði peningana inn á venjulega sparisjóðsreikninga með lítilli sem engri ávöxtun. Það fólk sleppur með allt sitt á þurru. Ég er ekki að segja að það hafi verið skynsamara en aðrir, en þessir fjármagnseigendur höfðu þó einhverja hugmynd um að hin leiðin hefði áhættu í för með sér.
Það sem okkur þykir auðvitað öllum verst er að áhættan varð raunveruleg.
Landsbankinn greiðir upp peningamarkaðssjóðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.10.2008 | 15:07
Og þessa menn vildi Davíð í þjóðstjórn
Blessunarlega hefur lítið heyrst í forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna að undanförnu. Það hefur bara verið of mikið að gera við að sinna alvörumálum. En nú blaðra þeir þvílíka steypu í þinginu að manni verður flökurt. Þessa menn vildi Seðlabankastjóri fá í þjóðstjórn. Þá fyrst væri þjóðin farin á kúpuna ef þeir hefðu fengið að hafa einhver áhrif.
Það versta er að í einstaka tilfellum geta þeir haft rétt fyrir sér. En þeir hafa í flestum tilfellum rangt fyrir sér, vita ekki baun um efnahagsmál og tala bara til að afla sér tímabundinna vinsælda. Nýta sér þá slæmu stöðu sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir.
Langverst er þó að ríkisstjórnarflokkarnir, núverandi og fyrrverandi, eru búnir að stjórna peningamálum svo illa að það er allt í rjúkandi rúst eftir þá. Það er semsagt afar vondur kostur að hafa þá og jafn vondur kostur að fá núverandi stjórnarandstöðu.
Er ekki hægt að bjóða ríkisstjórn landsins út á alþjóðamarkaði? Eða kannski gera eins og bandaríski hagfræðingurinn benti á, að velja ríkisstjórnina af handahófi úr símaskránni.
Mótmæla vaxtahækkun Seðlabankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2008 | 11:26
Varla undir 20 milljörðum - eða hvað
Þesi Sterling saga er mögnuð. Menn seldu félagið hver öðrum á sífellt hækkandi verði og síðast fór það á 20 milljarða króna. Samt hefur víst lítið verið um hagnað, þótt Pálmi Haraldsson aðaleigandi Sterling hafa stöðugt verið að spá honum.
En varla mun hann selja Sterling fyrir minna en 20 milljarða, eða hvað? Varla fer þessi klári bísnissmaður að selja með tapi? En reyndar skilur maður ekki hvers vegna Pálmi er að selja. Nýlega voru fréttir af því að hann hefði selt Jóni Ásgeiri félaga sínum í Baugi öll hlutabréf í fyrirtækjum í Bretlandi og sjálfur sagðist hann hafa sett Íslandsmet í gróða við þá sölu, hefði fengið 77 milljarða króna út úr því. Og hann sagðist ætla að einbeita sér að flugrekstrinum í Sterling. Sú einbeiting dugði nú ekki lengi.
En kannski ætti maður ekki að vera með nein leiðindi út í þetta. Líklegast er auðvitað að Pálmi sé að selja Sterling til að geta komið með peningana heim til Íslands til að bjarga efnahagslífinu. Nema kannski að hann sjái kauptækifæri í íslenskum fyrirtækjum og húseignum á brunaútsölu eftir að hann og útrásarvíkingarnir komu þjóðinni á heljarþröm.
Tvö tilboð í Sterling | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2008 | 15:27
Seðlabankastjórinn ber ábyrgðina alfarið
Það er komin glögg mynd á þetta: - Landsbankanum bauðst að færa ábyrgðina af Icesave alfarið til Bretlands gegn því að borga 35-40 milljarða króna. Vitaskuld átti bankinn þessa peninga ekki handbæra og leitaði því til Seðlabankans eftir láni, gegn traustum veðum fyrir margfaldri þessari upphæð. Landsbankamenn höfðu góð orð um þetta við Bretana, enda töldu þeir ljóst að Seðlabankinn sæi kosti þess að koma ábyrgðinni yfir á breska fjármálakerfið.
En nei, Davíð Oddsson var búinn að koma einum banka á kaldan klaka og munaði ekki um einn til. Hann lagðist gegn þessu láni og þar með fór eins og fór - Íslendingar fengu á sig stimpil hryðjuverkamanna og breska stjórnin felldi Kaupþing í leiðinni. Í staðinn fyrir að lána Landsbankanum 35-40 milljarða, þá situr íslenska þjóðin uppi með ábyrgð á 600 milljarða króna innlánatapi í Icesave.
Alistair Darling gerði það eina rétta - honum hafði verið sagt áður að þessum ábyrgðum yrði bjargað, en svo upplýsti Árni Mathiesen hann um að svo yrði ekki.
Allt í boði Davíðs.
Var ekki í nokkrum vafa eftir samtalið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2008 | 18:03
Kreppan er í tveimur pörtum
Vandræði íslenskra banka í útlöndum koma okkur venjulegu fólki ekki mikið við. Sá hluti fjármálakreppunnar er ekkert sem brennur beint á okkur, þó afleiðingarnar hafi vissulega mikil áhrif.
Sú kreppa sem hrjáir okkur hér heima hefur minnst með útrásina miklu að gera. Hún er miklu frekar því að kenna að Seðlabankinn stuðlaði að því að hingað streymdi erlendur gjaldeyrir á mjög lágu gengi (þ.e. krónan var sterk). Við tókum þessa peninga að láni og skuldsettum okkur upp í rjáfur. Svo þegar útlendu peningarnir koma ekki lengur vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar, þá fer allt þjóðfélagið í stopp.
Þessi partur kreppunnar er ekki að kenna Björgólfum eða Hannesi Smárasyni eða Bjarna Ármannssyni, heldur íslenskum stjórnvöldum, aðallega þó Seðlabankastjórunum. Þeir höguðu sér eins og fífl, voru annars vegar með háa stýrivexti til að halda niðri verðbólgunni en hins vegar flæddi hér allt í ódýru erlendu lánsfé, vegna þess hvað stýrivextirnir voru háir. Afleiðingin varð auðvitað sú að verðbólgan hélt sínu striki og almenningur og atvinnulíf nærðust á lánspeningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2008 | 13:27
Fánabrennur eru skaðlegar
Mótmælendur brenndu fána við Ráðherrabústaðinn í gær og komust í alþjóðlegar sjónvarpsstöðvar fyrir vikið. Þetta er ekta fínt fréttaefni fyrir sjónvarp.
En myndin sem þetta skapar af Íslandi er stórhættuleg. Hún skapar þá hugmynd erlendis að hér séu óeirðir og allt í rúst. Ferðamenn vilja ekki fara þangað sem slíkt ástand ríkir. Þó að við hér heima vitum að þetta var bara staðbundin athöfn í miðbænum, þá skila þær upplýsingar sér ekki til útlanda.
Þeir sem brenndu fánann töldu sig vafalítið vera að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri varðandi fjármálakreppuna. En í leiðinni sköpuðu þeir stórskaðlega mynd af landinu. Nógu slæmt álit hefur Ísland erlendis þó þetta bætist ekki við.
Látum í okkur heyra, en horfum á hugsanlega afleiðingar af svona táknrænum aðgerðum. Annars heldur umheimurinn að hér sé skríll farinn að taka völdin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.10.2008 | 17:32
Má ekki stoppa gjaldeyrisflóttann?
Sagt er að hækka þurfi stýrivexti eftir að við fáum gjaldeyrislánið frá IMF, til að koma í veg fyrir að þessi gjaldeyrir streymi bara út úr landinu.
Er ekki ljóst að gjaldeyrir streymir út úr landinu með einum hætti: - að fjármálastofnanir kaupi gjaldeyrinn og færi hann yfir í erlenda banka (eða á innlenda gjaldeyrisreikninga), ýmist í eigin þágu eða fyrir viðskiptavini sína sem eiga einhvern pening eftir.
Kannski er ég ekki nógu mikill kapítalisti í mér, en er ekki hægt að stoppa slíkt útflæði með handafli, líkt og Seðlabankinn hefur verið að gera undanfarnar vikur? Úr því að Seðlabankinn treystir sér til að ákveða hvort kaupa megi gjaldeyri til að flytja inn hjólbarða eða ekki, þá hlýtur að vera lítið mál að setja stopp á spákaupmennsku. Ef Seðlabankinn heimilar eingöngu gjaldeyrisviðskipti til að flytja inn vörur og þjónustu og að borga skuldir, þarf þá að hafa áhyggjur af öðru?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2008 | 13:49
Sama og Þorvaldur Gylfason hefur verið að benda á
Þorvaldur Gylfason prófessor hefur margsinnis bent á þetta sama og Björgólfur, en var lengst af úthrópaður fyrir neikvæðni. Núna er fólk að átta sig á að að lánafyllerí þjóðarinnar var ekki í boði bankanna, heldur Seðlabankans - og auðvitað ríkisstjórnarinnar líka. Bankarnir störfuðu bara í því umhverfi sem þeim var skapað, semsé gríðarlegt innstreymi af erlendum gjaldeyri vegna þess hvað Seðlabankinn var með háa stýrivexti.
Vissulega mætti segja við Björgólf líkt og aðra bankamenn, að þeir hefðu ekki átt að nýta sér þetta tækifæri sem stýrivaxtastefna Seðlabankans bauð upp á. En hvað átti banki að gera sem réði yfir ógrynni af evrum og dollurum á lágum vöxtum? Setja undir koddann?
Afleiðingin varð auðvitað sú að háir stýrivextir Seðlabankans höfðu engin áhrif á verðbólguna, vegna þess hvað mikið var í umferð af erlendu lánsfé á lágum vöxtum (og gleymum ekki lágvaxtalánum ríkis-Íbúðalánasjóðs).
Líkleg niðurstaða hvítbókar um bankakreppuna hér á landi verður sú að vissulega hafi bankarnir tekið of mikla áhættu í útþenslu sinni, en gríðarlega skuldasöfnun íslensku þjóðarinnar megi fyrst og fremst skrifa á geðveikislega tilraun Seðlabankans til að halda verðbólgu í skefjum, en stuðla að því á sama tíma að dæla peningum á lágum vöxtum inn í þjóðfélagið.
Krónan stærsta vandamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)