Víst er þetta vandamál stjórnvalda

Mér finnst ansi billegt hjá forsætisráðherra að klifa stöðugt á því að Icesave deila Breta og Íslendinga sé einhverju einkafyrirtæki að kenna. Ef það væri rétt, þá væru Bretar ekkert að deila við íslensk stjórnvöld. Þá væru þeir að berja á íslenska fyrirtækinu.

En staðreynd málsins er önnur. Bresk stjórnvöld eru að berja á íslenskum stjórnvöldum út af Icesave, vegna þess að íslensk stjórnvöld báru ábyrgð á íslenska bankakerfinu. Hvers vegna í ósköpunum ætti Geir Haarde annars að vera að standa í milliríkjadeilu við Breta?

Hvers vegna hendir hann ekki bara Bretunum út og segir þeim að tala við einkafyrirtækið? Hann getur það ekki, vegna þess að bankakerfi Íslands er á hans ábyrgð. Það voru íslensk stjórnvöld sem létu reika á reiðanum í bankamálunum. Þess vegna eru Bretar svona fjandi erfiðir og skyldi engan furða.


mbl.is Við hættum frekar við lánið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki það eina grunsamlega við Kaupþing

Stjórnvöld hafa staðið óeðlilega mikinn vörð um Kaupþing og Kaupþingsmenn í hremmingunum undanfarið.

Kaupþing var eini bankinn sem Seðlabankinn lánaði peninga til að lifa nokkra daga í viðbót. Þann tíma notuðu stjórnendur bankans augsýnilega til að tryggja sig og sína fyrir skakkaföllum eins og frægt er orðið. Svo var ríkisvaldið í vinsamlegum viðræðum við fyrrum stjórnendur bankans og lífeyrissjóðina að kaupa hann aftur á brunaútsölu.

Stóra spurningin sem margir velta fyrir sér núna er hvort það hafi verið Kaupþing sem breski forsætisráðherrann var að meina, þegar hann sagði að Íslendingar hafi verið að flytja fjármuni úr dótturfélögum í Bretlandi til Íslands í stórum stíl rétt fyrir bankahrunið. Að það hafi verið sú aðgerð sem leiddi til þess að við vorum stimpluð hryðjuverkamenn - og erum það enn. Hvers vegna skyldi breska ríkisstjórnin annars hafa séð ástæðu til að hertaka dótturfélag Kaupþings í Bretlandi?

Hér er eitthvað verulega gruggugt á ferðinni og löngu tímabært að íslensk stjórnvöld segi sannleikann.


mbl.is Þurfa ekki að greiða fyrir hluti í Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og neyðarlögin voru samin í sumar

Maður er gapandi hissa alla daga yfir því hvernig ráðamenn þessa lands hafa unnið í fjármálakreppunni. Nú kemur í ljós að Geir Haarde ræddi þessi mál við Gordon Brown í apríl. En hann virðist svo ekkert hafa gert í framhaldinu annað en setja af stað vinnu við að semja neyðarlögin, sem sett voru á Alþingi nú í byrjun október.

Það hefur farið undarlega lítið fyrir þeirri frétt sem virtist á visir.is að Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, staðfesti í síðustu viku að í sumar hafi neyðarlögin verið samin. Jón Þór segir við vísi að menn hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig.

Bíddu nú við, ef stjórnvöld voru jafnvel svona svartsýn síðastlðið sumar, að bankarnir gætu farið á hvolf, hvers vegna var ekkert unnið í því að afstýra að svo færi?

Hér er fréttin sem birtist á visir.is, og hér er hlekkurinn á hana

Drög að neyðarlögunum voru lögð í sumar

mynd
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra.

Drög að neyðarlögunum sem samþykkt voru á Alþingi þann sjötta október síðastliðinn og gerðu Fjármálaeftirlitinu kleift að taka yfir rekstur bankanna voru saminn mánuðum áður en lögin voru lögð fyrir Alþingi. Vísir hefur heimildir fyrir því að stór hluti vinnunar hafi farið fram í sumar og var hún unnin af starfsmönnum viðskiptaráðuneytisins.


Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, segir að allskyns viðbragðsvinna hafi verið í gangi á vegum stjórnvalda. „Það var því til grunnur að svona frumvarpi sem svona viðbragðsáætlun," segir hann en segist ekki vera með nákvæmar tímasetningar á því hvenær sú vinna hófst.

„Ýmsar viðbragðsáætlanir voru í handraðanum sem komu sér vel þegar menn stóðu frammi fyrir þessum afarkostum," segir Jón Þór.

 


mbl.is Geir aðvaraði Brown í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifaríkasta skyndiaðgerð stjórnvalda er að ná í ferðamenn

Þessi frétt segir allt sem segja þarf um þau tafarlausu jákvæðu áhrif sem erlendir ferðamenn geta haft á þjóðarbúið. Þeir kom ameð "instant" gjaldeyri í svelta sjóði.

Það er auðvitað nokkuð skondið að nú teljist það frétt að EKKI þurfi að segja upp fólki. En engu að síður er þetta mjög mikilvæg frétt. Hún staðfestir að við græðum öll á því að settir verði drjúgir fármunir í það að markaðsssetja Ísland fyrir erlenda ferðamenn.


mbl.is Erlendir ferðamenn bjarga vetrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður fær bara hroll

Eru heimskunni engin takmörk sett? Átta Vinstri Græn sig ekki á því að hluthafar í hverjum og einum bankanna voru þúsundir talsins. Er meiningin hjá þeim að láta frysta eða kyrrsetja eignir alls þessa fólks?

Eða er hugmyndin hjá Vinstri Grænum að hafa smá Sovét stíl á þessu. Velja þá sem á að taka í karphúsið - taka bara eignir af þeim sem áttu hluti fyrir 10 milljónir eða meira.

Það hefur varla tekið lögfræðinga Alþingis langan tíma að setja saman minnisblað um það hversu absúrd þessi hugsun er hjá Vinstri Grænum. En óneitanlega fær maður hroll yfir því að það skuli vera til þingmenn sem yfirleitt láta sér detta í hug, hvað þá nefna það opinberlega, að fara í einhverjar geðþóttaaðgerðir og taka eignir af fólki, í ástandi sem er ansi mörgum að kenna, þar á meðal sofandi þingmönnum.


mbl.is Erfitt að kyrrsetja eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta minnir bara á methagnað Pálma Haraldssonar

Uss, hlutfallslega eru þetta bara smápeningar sem Exxon hefur grætt, miðað við Íslandsmetið sem Pálmi Haraldsson sagðist hafa sett um miðjan ágúst síðastliðinn.

Þá seldi hann þriðjungshlut sinn í verslunarkeðjunni Iceland í Bretlandi, svo og hluti í nokkrum öðrum ábatasömum breskum fyrirtækjum. Hann sagðist hafa hagnast um 77 milljarða króna á sölunni, sem líklega væri Íslandsmet í gróða í einum viðskiptum. Hann fékk greitt í peningum að sjálfsögðu, en einnig fékk hann um þriðjungshlut í Northern Travel Holding og átti það þar með 100% ásamt félaga sínum Jóhannesi Kristinssyni. En Northern Travel Holding er eignarhaldsfélag Sterling sáluga, sem varð gjaldþrota í gær.

Þessi mesti hagnaður Íslandssögunnar hjá Pálma var að nokkru lagður í að fjármagna Sterling, en augsýnilega vildi hann ekki lengur ausa peningum í þá botnlausu hít og þarmeð fór flugfélagið á hausinn. En vonandi heldur Pálmi einhverju eftir af 77 milljarða methagnaðinum, þannig að við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af fjárhagslegri stöðu hans.

Verst samt að hann var búinn að "eyða" svo miklum peningum í að kaupa Sterling fram og til baka af sjálfum sér og Hannesi Smárasyni til skiptis. Vonandi hafa þeir ekki tapast líka. En ef hann finnur þá ekki í vinstri vasanum, þá er líklegt að þeir séu í hægri vasanum. Annaðhvort á honum eða Hannesi félaga sínum.


mbl.is Mesti hagnaður sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stemmir ekki við það sem Davíð sagði

Mbl.is hefur eftir forsætisráðherra að skellurinn sem geti lent á ríkinu vegna bankahrunsins gæti orðið um 1.100 milljarðar króna, eða 85% af landsframleiðslu.

Þetta rímar ekki við það sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði í Kastljósinu. Hann var góður með sig, sagði að við mundum ekki borga skuldir óreiðumanna í útlöndum. Hann sagði að hér yrði allt skínandi fínt þegar búið væri að taka til í bankakerfinu. Líklega yrði ástandið betra.

Halló! Ef hrun bankanna leiðir til þess að þjóðin situr uppi með 85% landsframleiðslunnar í skuld, hvað var Davíð þá að fara?


mbl.is 85% af vergri landsframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftæði, hér var allt í góðu lagi fyrir 5 árum

Við munum ekki bakka um 5 ár, heldur 25 hvað varðar lífskjör þjóðarinnar.

Það getum við þakkað því að skömmu eftir einkavæðingu bankanna hætti ríkisstjórnin og Seðlabankinn að bera ábyrgð á fjármálaheiminum.  Taumurinn var gefinn laus og bindiskylda bankanna lækkuð. Þeir fóru af stað eins og kýr á vordegi og kunnu sér ekki hóf í útrásinni. Allan tímann horfðu stjórnvöld á þróunina og eina ráð þeirra var að hækka stýrivextina. Þá fór erlendur gjaldeyrir að streyma til landsins til að nýta vaxtamuninn og þessir peningar leituðu út til almennings sem ódýrt lánsfé. 

Geir Haarde ber gríðarþunga ábyrgð, vegna þess að hann var fjármálaráðherrann sem slakaði á öllu eftirliti með bönkunum. Síðan varð hann forsætisráðherra sem stóð við bakið á þeim og varði þá háskalegu stefnu sem fjármálakerfið tók. Ásamt forsetanum og Seðlbankastjórunum.

Við vorum í góðum málum fyrir 5 árum. Það sem blasir við núna er frekar í ætt við ástandið fyrir 25 árum - ef ekki fyrr. Nema að þá skulduðu fæstir nokkuð, vegna þess hvað erfitt var að fá lán.


mbl.is Geir sagður óttast fimm ára bakslag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfulegasta sem hún hefur gert

Ég man bara ekki eftir að hafa heyrt nokkuð jafn gáfulegt frá utanríkisráðherranum.

Bætir aðeins upp ruglið með öryggisráðið.


mbl.is Horfið frá beiðni um loftrýmiseftirlit?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðrétt fyrirsögn (Bara ein flugvél í vetur) - Tvær vélar í vetur

Upprunaleg málsgrein: Með því að skoða bókunarsíðu Iceland Express í vetur sér maður að félagið er bara með eina flugvél í notkun, nánast allan tímann. Það er því heldur betur samdráttur, félagið orðið álíka stórt og það var í byrjun.

Sjá athugasemd frá Andrési Jónssyni hér að neðan um að þetta sé ekki allskostar rétt.

En kannski er þetta bara gáfulegast, að draga úr kostnaði og áhættu eins mikið og hægt er. En um leið minnkar samkeppnin við Icelandair. En kannski hefur sú samkeppni ekki verið merkileg, því manni hefur fundist bæði flugfélögin vera með ósköp svipuð - og dýr - fargjöld.

En það hefur alltaf verið hægt að mjólka Íslendinga til að standa undir alls konar rugli og alveg pottþétt að milli Iceland Express og Icelandair er góður skilningur á því að halda núverandi stöðu óbreyttri. Icelandair græðir nefnilega ekkert á því að Iceland Express fari á hausinn, því þá gæti bara komið nýtt flugfélag og farið að bjóða lág fargjöld. Það væri auðvitað alveg ferlegt fyrir bísnissinn.


mbl.is Engin áhrif á Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband