4.5.2009 | 21:36
Gott framtak hjá Björgólfi
Mér hefur alltaf þótt Björgólfur áhugaverður og drífandi karakter. Vissulega var hann einn af útrásarvíkingunum. En hann sker sig úr þeim hópi með því að hafa einn þeirra tekið persónulega ábyrgð á skuldum. Nú fellur þessi ábyrgð á hann, en hinir "víkingarnir" sitja sem fastast í sínum glæsihöllum og munu engu tapa persónulega.
Prófum bara að skoða dæmið miðað við ef Björgólfur hefði EKKI tekið þessa ábyrgð. Það kemur fram í tilkynningunni frá honum að persónulega ábyrgðin sé 58 milljarðar og upp í hana komi kannski 12 milljarðar. Eftir standa 46 milljarðar. Björgólfur segir að verðmæti annarra fyrirtækja sinna sé á bilinu 15 til 23 milljarðar króna (en var í ársbyrjun 2008 um 140 milljarðar). Ef hann hefði tekki tekið þessa persónulegu ábyrgð, þá gæti hann setið sem fastast á þessum 15 til 23 milljörðum. En vegna þess að hann tók ábyrgðina af klúðrinu hjá Eimskipafélaginu á sjálfan sig, þá fara allar þessar eignir upp í þessa 46 milljarða sem út af standa. Það er þó skárra en ef ekkert fengist upp í kröfuna.
Það er skýr munur á Björgólfi og öðrum útrásarvíkingum í þessu samhengi og mér finnst mikil ástæða til að benda á þessa staðreynd. Nóg er nú lamið á manninum, svo fast reyndar að fólki yfirsést þó þessi ljósi punktur í tilverunni fyrir kröfuhafa. En vitaskuld er ekki jafn bjart yfir Björgólfi sjálfum, því hann tapar öllu.
Framtíðin undir kröfuhöfum komin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.