Ruglið byrjaði með 90% lánaloforðum Framsóknarmanna

Framsóknarmenn ættu að tala varlega. Þeir eiga þann vafasama heiður að hafa kveikt neistann sem varð að því efnahagsbáli sem þjóðin glímir við.

Fyrir alþingiskosningarnar 2003 var helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins að lofa 90% íbúðalánum. Þeir komust í ríkisstjórn og Íbúðalánasjóður var settur í að standa við kosningaloforðið. Framboð lána jókst verulega og þar með byrjaði húsnæðisverð að hækka - einföld hagfræði. Bankarnir fóru að blanda sér í leikinn, enda eru húsnæðislán afar örugg. Hækkandi húsnæðisverð jók verðbólguna og þá hækkaði Seðlabankinn stýrivexti. Hærri stýrivextir leiddu til útgáfu á jöklabréfum í milljarðavís og þá varð enn meira framboð á ódýrum lánum.

Ábyrgð Framsóknarflokksins er sú að hafa með kosningaloforðum sínum riðlað því jafnvægi sem var á lánamarkaðnum, þannig að húsnæðisverð rauk upp úr öllu valdi. Eftir situr fólk sem keypti sér eignir á uppsprengdu verði, ýmist á innlendum eða erlendum lánum.

Í pólitísku uppgjöri efnahagsástandsins skyldi enginn gleyma upphafinu, sem var í boði Framsóknarflokksins.


mbl.is Framsókn: Ríkisstjórnin hvetur til viðskiptalegs siðrofs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Leifur,

Ég held það sé mikil einföldun að kenna íslenskum stjórnmálaflokki um vandmál sem hefur verið að tröllríða nánast öllum þjóðum undanfarna mánuði.  Við seldum nýlega húsið okkar í San Antonio, Texas, sem er með ódýrustu borgum í Bandaríkjunum.  Þetta hús var 10 ára gamalt og hafði hækkað í verði um rúm 47%  Húsnæðisverð í borgum á austur og vesturströndinni margfaldaðist á sama tíma.  Ástæðan var sú að bankar út um allan heim tóku ákvörðun um það í byrjun þessa áratugar að hægt væri að lána hærra hlutfall til íbúðalána vegna uppsveiflu á húsnæðisverði og töldu að húsnæðisverð myndi halda áfram að hækka.  Lánin urðu hærri og hærri og fólk átti í meiri og meiri erfiðleikum með greiðslur og húsnæðiskerfið hér hrundi á skömmum tíma og bankakerfið fór á eftir.  Þessi alda hefur svo haldið áfram að ríða yfir Evrópu og Asíu með tilheyrandi lausafjárkreppu sem svo olli þjóðnýtingu bankanna á Íslandi og nokkurra banka hér í Bandaríkjunum. 

Hinsvegar er ég sammála því sem þú hefur komið með í öðrum pistlum um neyðarlögin og ég held að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafi haldið afskaplega illa og ófagmannlega á þessum málum, sérstaklega hvernig var staðið að yfirtöku Glitnis.  Framganga Breta var ekkert til að hrópa húrra yfir en með þeim aðgerðum og aðgerðaleysi sem einkenndi viðbrögðin heima, þá held ég að ríkisstjórnin og Seðlabankinn geti að miklu leyti sjálfum sér um kennt.  Slæmt mál, hvernig sem á það er litið, en vonandi tekst að bjarga einhverju af eignum bankanna svo þessi skuldahali geti greiðst niður á eðlilegan hátt án þess að rústa gersamlega öllu!

Kveðja frá Bandaríkjunum

Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 07:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband